Ég er fæddur og uppalinn á Húsavík. Þegar ég var 17 ára hélt ég til Reykjavíkur þar sem ég útskrifaðist sem stúdent frá Fjölbrautarskólanum við Ármúla árið 1985. Nokkrum árum seinna fór ég svo í nám við Háskóla Íslands þar sem ég lauk námi með Bachelor gráðu í sálarfræði árið 1998. Loka ritgerð mín í HÍ fjallaði um árangurs og íþróttasálfræði.
Vorið 2004 fer ég að finna fyrir mikilli þreytu og dofa í höndum, fótum og andliti auk skjálfta í fingrum. Ég leitaði læknis en ekkert fannst að mér. Það fékk mig til þess að leita annarra leiða sem svo á endanum varð til þess að ég endaði í Barbara Brennan School of Healing í Flórída. Öll mín sjúkdómseinkenni hurfu fljótlega eftir að ég byrjaði í náminu sem að ég lauk með diploma og bachelor gráðu vorið 2008. Síðan hef ég unnið sem Brennan heilari og ráðgjafi í Reykjavík og víða um land.
Ég er giftur og á þrjú börn, stúlku sem er fædd 1995 og tvo drengi fæddir 2003 og 2004. Ég er líka söngvari, lagahöfundur, umboðsmaður og talsmaður hljómsveitarinnar Greifanna. Með tónlistinni og náminu hef ég unnið hin ýmsu störf eins og sölumensku, unnið í útvarpi, við viðburðastjórnun, við garðyrkju, í byggingarvinnu, komið að bókaútgáfu en þó ber sérstaklega að nefna íþróttaþjálfun barna og unglinga á öllum aldri. Ég starfaði sem borðtennis kennari og þjálfari hjá Víkingi, KR og fleiri félög í mörg ár og auk þess að hafa verið þjálfari fyrir flest landslið Íslands í borðtennis.
Ég hef brennandi áhuga á öllu sem snýr að mannlegum þroska, heilsu, samskiptum, heimspeki, umhverfismálum, þjálfun og mataræði. Þar sem ég er líka tónlistarmaður þá hef ég líka mikinn áhuga á áhrifum tónlistar á líkamlega og andlega líðan okkar og hef skoðað þau mál töluvert.